Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands, segir að Seðlabankinn sé á milli steins og sleggju við ákvörðun stýrivaxta á fimmtudaginn. "Bankinn er auðvitað í ákveðnum vanda. Annars vegar verður hann að horfa til verðstöðugleika og hins vegar mögulegs óstöðugleika á fjármálamarkaði. Þetta togast á og við höfum áhyggjur af hvoru tveggja. Verðbólgan er óviðunandi eins og er og líkur í þeim efnum eru ekki góðar til skamms tíma litið. Hins vegar höfum við líka áhyggjur af því að fjármálastöðugleika sé ógnað. Það sem hefur gerst síðasta misseri er auðvitað áhyggjuefni," segir hann.

"Við höfum vonast til þess að sjá stýrivexti geta lækkað, en í raun og veru er Seðlabankinn á milli steins og sleggju. Annars vegar kallar fjármálastöðugleikinn á að hann lækki vexti og hins vegar eru verðbólguhorfur til skamms tíma óhagstæðar. Ef maður horfir aftur á móti til lengri tíma eru líkur á því að mjög muni hægja á í hagkerfinu og það ætti að gefa tilefni til vaxtalækkunar," segir hann.

Ólafur Darri segir að ASÍ hafi væntingar um að stýrivaxtalækkunarferli geti hafist sem allra fyrst. "En þá verðum við náttúrlega líka að horfa á það að verðstöðugleikinn er ekki fyrir hendi eins og er. Almennt séð myndi ég nú telja líkur á því að vaxtalækkun ætti að geta hafist fljótlega, meiri en minni. En hvort bankinn metur aðstæður svo að rétt sé að hefja lækkun núna í vikunni eða bíður með það fram eftir vori þori ég ekki að segja. Vandamálið sem bankinn stendur frammi fyrir er að eftir því sem hann dregur vaxtalækkunarferlið eykst hættan á harðri lendingu í hagkerfinu. Það er verulegt áhyggjuefni," segir hann.

Ólafur Darri segir að fari Seðlabankinn hratt í stýrivaxtalækkun muni það til skamms tíma hafa töluverð áhrif á gengið og þar með verðlag. Spurður hvort hann telji í því ljósi að bankinn muni fara hægt í sakirnar og lækka vexti í smáum skrefum, segir hann mjög erfitt um það að segja. "Ég held að það ráðist nú frekar af framvindunni í fjármálastöðugleika en verðbólgunni. Þegar maður horfir á það að hagkerfið virðist vera að róast og líkur aukast á því að lendingin verði harðari en vonast hafði verið til, ýtir það undir það að bankinn geti farið hraðar í vaxtalækkun en ella."