Hjaðnandi verðbólga og minnkandi framleiðsluspenna í hagkerfinu benda til þess að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti sína innan tíðar, segir greiningardeild Glitnis.

?Ef til dæmis miðað er við þá Taylor-reglu sem Seðlabankinn notast við í þjóðhagslíkani sínu þá blasir við að vextir muni lækka á næsta ári að öðru óbreyttu. Slík regla er vitaskuld ofureinföldun á flóknum veruleika og aðeins hægt að túlka sem vísbendingu um líklega vaxtastefnu bankans.

Gera verður ráð fyrir að bankinn taki einnig til greina mikla gengisáhættu og ójafnvægi um þessar mundir en þessir þættir gætu tafið fyrir vaxtalækkun,? segir greiningardeildin.

Hún segir að Taylor-reglan bendir til þess að vextir Seðlabankans séu í hærri kantinum miðað við horfur í efnahagsmálum.

?Í grunnspá Seðlabankans er til dæmis reiknað með að framleiðsluspenna á næsta ári verði tæplega 2% og verðbólgan tæplega 5% að meðaltali á árinu. Gefur einföld Taylor-regla til kynna að þá ættu stýrivextir að vera í um 10% á næsta ári.

Verðbólgan er hins vegar hverfandi um þessar mundir og minnkar á næstunni jafnvel þótt litið sé framhjá áhrifum lækkunar á matarskatti. Grunnspá Seðlabankans virðist gera ráð fyrir meiri verðbólgu en útlit er fyrir. Einnig bendir flest til þess að nú dragi úr framleiðsluspennu í hagkerfinu,? segir greiningardeildin.

Þá segir hún einnig að ekki verði horft framhjá því að verðbólguvæntingar í hagkerfinu hafi dregist snarlega saman jafnvel þótt það sé afleiðing handstýrðra aðgerða ríkisvaldsins í aðdraganda kosninga.

?Áhrif aðgerðanna á væntingar eru raunverulegar og Seðlabankinn mun taka tillit til þess. Við teljum að Seðlabankinn muni taka að lækka stýrivexti sína um miðbik næsta árs og þeir standi í um 11,5% í lok ársins. Óvissa spárinnar er mikil og ekki síst til enn frekari vaxtalækkunar,? segir greiningardeildin.