Seðlabankinn lítur mun dekkri augum á framtíðina en sérfræðingar á fjármálamarkaði, sérstaklega þegar horft er til hagvaxtar næstu þrjú árin.

Undantekning er þó árið í ár en Seðlabankinn spáir 1,1% hagvexti í ár á meðan meðaltalsspá sérfræðinganna hljóðar upp á aðeins 0,1% vöxt.

Umræddir sérfræðingar eru greinendur hjá Askar Capital hf. og greiningardeildum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.

Fyrir árin 2009 og 2010 eru sérfræðingarnir hins vegar töluvert bjartsýnni á að peningastefna Seðlabankans skili árangri en Seðlabankinn sjálfur.

Þannig spáir Seðlabankinn 2% samdrætti á árunum 2009 og 2010 en sérfræðingarnir spá að meðaltali 0,5% hagvexti árið 2009 og 2,3% vexti 2010.

Hvað varðar verðbólgu eru spár Seðlabankans og sérfræðinganna nær samhljóm fyrir árið í ár, spá Seðlabankans er í við hærri eða 11,3% á móti 11,1% verðbólguspá sérfræðinganna.

Fyrir næsta ár er Seðlabankinn hins vegar mun svartsýni og spáir 7,6% verðbólgu árið 2009 á meðan meðaltal sérfræðinganna hljóðar upp á 4,9%.

Það birtir þó yfir verðbólguspá Seðlabankans því lengra sem hann horfir fram veginn, en fyrir árið 2010 spáir hann 3% verðbólgu á meðan sérfræðingarnir spá 3,3% verðbólgu.