Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Seðlabanki Íslands engin viðskipt átt á gjaldeyrismarkaði síðastliðna viku en eins og fram kom í morgun hefur krónan veikst um 1,9% í morgun og rúm 5% síðastliðna viku.

„Við erum komin á veikara gildi en við vorum á þegar lögin [um gjaldeyrishöft] voru sett,“ segir viðmælandi Viðskiptablaðsins af gjaldeyrismarkaði og bætir því við að svo virðist sem gjaldeyrishöftin sem Alþingi samþykkti í síðustu viku séu ekki að virka sem skyldi.

Þá segir hann afskiptaleysi Seðlabankans á markaði síðustu daga ekki vera í takt við fyrri orð bankans um að allt kapp verði lagt á að styrkja krónuna.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru enn töluverðar vaxtagreiðslur að fara úr landinu og á móti kemur að lítill gjaldeyrir er að skila sér inn vegna útflutnings. Þannig virðist eftirspurnin eftir gjaldeyri vera meira en framboðið.

Samkvæmt Dow Jones fréttaveitunni eru sáralítil viðskipti með krónuna á millibankamörkuðum erlendis en þar er gengi krónunnar að meðaltali um 270 gagnvart evru, þó koma tilboð og óskir á bilinu 220 – 320 gagnvart evru en sem fyrr segir eru sáralítil viðskipti með krónuna erlendis.