Gera má ráð fyrir að samdráttur í landsframleiðslu dragist saman um 8,5% á þessu ári, en ekki 9% eins og áður var gert ráð fyrir.

Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra þegar hann kynnti vaxtaákvörðun bankans nú fyrir stundu en eins og greint var frá í morgun lækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína um 100 punkta, úr 12% í 11%.

Á fundinum kom fram að Seðlabankinn telur að samdráttur í einkaneyslu og vöxtur á atvinnuleysi hafi nú náð hámarki og nú fari að horfa til betri tíma. Hins vegar hafi dregið hægar úr verðbólgu en vonir stóðu til að forsvarsmenn Seðlabankans telja þó að allt bendi til þess að verðbólgan muni minnka verulega næstu vikur og mánuði.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að aðgerðir til þess að draga lausafé úr umferð með því að bjóða út innstæðubréf til 28 daga hafa borið árangur.  Millibankavextir hafi færst inn í vaxtaganginn og í því felist heldur aukið aðhald peningastefnunnar, þótt hinir virku vextir hafi áfram verið lægri en 10%.

Þá segir Seðlabankinn að gengi krónu hafi verið nokkurn veginn stöðugt frá því síðla sumars, en eigi að síður lægra en æskilegt væri. Inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafa verið hófleg og mun minni en sl. sumar.

„Hætta sem  efnahag einkageirans stafar af lágu gengi krónunnar kann einnig að vera einhverju minni en áður var talið í ljósi nýrra upplýsinga um hversu efnahagsreikningar eru berskjaldaðir fyrir gjaldmiðlaáhættu. Endurskipulagning efnahags einkageirans, sem nú stendur yfir, ætti að draga úr þessari áhættu enn frekar,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.