Seðlabankinn hefur, vegna „óvenjulegra aðstæðna“ sett hömlur á útflæði gjaldeyris.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að búið er að grípa til ráðstafana til að draga úr erlendum úttektarheimildum á kreditkortum.

Þá er ekki talin ástæða til að takmarka ferðamannagjaldeyri umfram það sem bankarnir sjálfir eru að gera vegna skorts á seðlum hjá þeim sjálfum.

„Eðlilegt er að bankar geri þá kröfu að framvísað sé farseðli eða ígildi hans og að viðkomandi sé í viðskiptum við banka/útibú,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni kemur fram að setja þarf upp forgangsafgreiðslu á gjaldeyri vegna vöru- og þjónustuinnflutnings.

„Ekki er æskilegt að eyða tíma í að eltast við einstaka vöruflokka, heldur einbeita kröftum að því að fylgjast með hærri fjárhæðum,“ segir í tilkynningunni.

„Þar sem starfsmenn bankaútibúa þekkja best til sinna viðskiptavina væri eðlilegt að þeir hefðu með höndum mat á því hvort beiðnir um gjaldeyriskaup vegna innflutnings eru vegna nauðsynlegs innflutnings á vöru og þjónustu.“

Þá kemur fram í tilkynningu Seðlabankans að hægt sé að leita til Seðlabankans til að fá úrskurð ef vafi léki á nauðsyn.

„Ef óskað er eftir kaupum á gjaldeyri frá Seðlabankanum vegna innflutnings vöru eða þjónustu skal senda tölvuskeyti þar að lútandi á tölvupóstfang: [email protected] . Þar verða beiðnir metnar og afgreiddar eins hratt og unnt er,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Í forgangsflokkum gætu t.d. verið eftirfarandi liðir, matvara, lyf, olíuvörur og opinber kostnaður erlendis.

Þá segir Seðlabankinn að forðast ætti að nýta gjaldeyri sem kemur inn í bankana, til fjármálatengdra gjaldeyrisviðskipta af neinu tagi.

„Þeir bankar sem njóta fyrirgreiðslu Seðlabankans þurfa að gera sundurliðaða grein fyrir öllum gjaldeyrisviðskiptum sínum í lok hvers dags,“ segir að lokum í tilkynningunni.