Stjórnendur Seðlabanka Íslands telja ekki ástæðu til að bregðast við vegna ummæla fulltrúa í peningastefnunefnd, Anne Sibert, um að Íslendingar geti fyllilega staðið undir Icesave-skuldbindingum. Nefndarmönnum sé frjálst að tjá skoðanir sínar innan ákveðinna marka.

Sibert opinberaði þessa skoðun sína á hagfræðivefnum Vox rétt áður en íslensk sendinefnd hélt til Bretlands til að reyna að endursemja um Icesave við bresk og hollensk stjórnvöld.

Viðskiptablaðið hafði samband við skrifstofu bankastjórnar í gær eftir að formaður Framsóknarflokksins hafði krafist þess í upphafi þingfundar að Sibert yrði vikið úr peningastefnunefndinni. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði samkvæmt umfjöllun Eyjunnar að ummæli Sibert hefðu verið "afar óheppileg". Samkvæmt Eyjunni benti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á að Anne væri á launum hjá íslenskum skattgreiðendum við að gæta hagsmuna Íslendinga og þar á meðal að verja íslensku krónuna. Ummælin færu gegn því og eðlilegt að hún viki úr peningastefnunefndinni.

Hvorki Már Guðmundsson seðlabankastjóri né Arnór Sighvatsson aðstoðarbankastjóri, sem báðir sitja í peningastefnunefnd, gáfu færi á sér í gær. Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri og upplýsingafulltrúi á skrifstofu bankastjórnar, sagði í skriflegu svari að bankinn hefði í sjálfu sér afskaplega lítið um þetta að segja.

"Fulltrúum í peningastefnunefnd er frjálst að tjá skoðanir sínar innan þeirra marka sem kveðið er á um í reglum um starfshætti nefndarinnar.  Þær tölur um Icesave-skuldina sem vitnað er í (15% núvirði hreinnar Icesave-skuldar) og 50% (verg skuld) er að finna í opinberum greinargerðum SÍ til þingnefnda," sagði í svari Stefáns.