Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segist hafa spáð sterkari atvinnufjárfestingu en efni stóðu til í síðustu þjóðhagsspá Seðlabankans. Sú spá hefði byggst á tölum um innflutning á fjárfestingavörum, sem síðan birtist sem fjárfesting í hagkerfinu. „Síðan kemur í ljós að það var fyrirtæki sem misskráði þessar upplýsingar til Hagstofunnar. Þetta er ekki eins og við héldum," sagði Þórarinn á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í dag.

Hagvöxtur samkvæmt tölum Hagstofunnar var minni en Seðlabankinn hafði spáð. Seðlabankastjóri hafði sagt botninum náð og aðspurður í morgun hvort sú fullyrðing fengist staðfest sagði Már það vera nema ef samdráttur yrði líka á þriðja ársfjórðungi. „Það þarf að vera samdráttur á þriðja ársfjórðungi til að fullyrðing um að botninum sé náð sé röng," sagði Már. Á fundi með seðlabankastjórum erlendis hefði komið fram að erfitt væri að stóla á nýjar upplýsingar því allt væri háð svo miklum sveiflum.

Þórarinn lagði áherslu á að hagvaxtaspá bankans nú væri líkari því sem gefið var út í maí en ekki í ágúst. Þeir væru enn á því að batinn myndi hefjast á seinni hluta ársins.