Seðlabankinn spáir í þjóðhagsspá Peningamála, sem kom út í gær, að raunverð íbúðahúsnæðis muni lækka um u.þ.b. 30% á spátímabilinu, sem nær til ársins 2010.

„Kólnun á húsnæðismarkaði hefur þegar komið fram í því að verðhækkun íbúðarhúsnæðis hefur u.þ.b. stöðvast, þrátt fyrir umtalsverða hækkun byggingarkostnaðar, og velta hefur minnkað hratt. Horfru eru á að lækkun ráðstöfunartekna, þrengingar á lánamörkuðum og aukið framboð íbúðarhúsnæðis leiði til umtalsverðrar verðlækkunar. Gert er ráð fyrir að húsnæðisverð lækki um u.þ.b. 30% að raunvirði á spátímabilinu. Gangi það eftir mun hækkun íbúðaverðs umfram almennt verðlag undanfarin fimm ár ganga að mestu leyti til baka. Verðið yrði eftir sem áður ekki lágt í sögulegu samhengi,“ segir í spá bankans.

Tekið er fram að gríðarleg óvissa sé um þessa þróun, m.a. vegna þess að hún kunni að hafa umtalsverð áhrif á útlánagetu fjármálakerfisins. „Ekki er því hægt að útiloka enn meiri samdrátt á fasteignamarkaði.“