Seðlabankinn er að vinna að tveimur umsögnum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Icesave-ríkisábyrgðina. Annars vegar mati á efnahagslegum áhrifum Icesave-samninganna og hins vegar lögfræðilegu mati á þeim. Stefnt er að því að kynna þessar umsagnir fjárlaganefnd þingsins á morgun, miðvikudag.

Minnisblað tveggja lögfræðinga Seðlabankans, þeirra Sigríðar Logadóttur og Sigurðar Thoroddsen, hefur þegar verið lagt fyrir fastanefndir þingsins þar sem Icesave-samningarnir eru harðlega gagnrýndir. Minnisblaðið er birt á vef Alþingis og má sjá það hér. Það er stílað á utanríkismálanefnd.

Ekki náðist í Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar þingsins, við vinnslu þessarar fréttar en hann sagði í samtali við Ríkisútvarpið í morgun að hann hefði í gærkvöld fengið bréf þar sem því er lýst yfir að minnisblaðið væri ekki álit Seðlabankans heldur væri það persónulegt álit lögfræðinganna tveggja.

Viðskiptablaðið fékk þetta ekki staðfest frá Seðlabankanum. Sigríður Logadóttir gaf Viðskiptablaðinu ekki kost á viðtali vegna þessa máls og Sigurður Thoroddsen var sagður í fríi.

Heimildir innan úr utanríkismálanefnd þingsins segja þó að bréfið til Árna Þórs hafi komið frá Sigríði Logadóttur.

Ekki upplýst hverjir vinna nýja álitið

Sé umrætt minnisblað hins vegar skoðað sést að á forsíðu þess er það rækilega merkt Seðlabanka Íslands. Hvergi er tekið fram í minnisblaðinu sjálfu að það sé persónuleg skoðun lögfræðinganna sjálfra en ekki álit bankans.

Þegar Viðskiptablaðið spurðist fyrir um það innan Seðlabankans hverjir væru að vinna að lögfræðiálitinu sem yrði lagt fyrir fjárlaganefnd á morgun fengust þau svör ein að „lögfræðingar bankans [ynnu] að því."

Ekki fengust upplýsingar um það hvort það væri hinir sömu og sömdu títtnefnt minnisblað til utanríkismálanefndar þingsins.

Þess má geta að Sigríður Logadóttir er aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands.