Stýrivextir Seðlabanka Íslands haldast óbreyttir og verða áfram 15,5% samkvæmt tilkynningu Seðlabankans nú rétt í þessu.

Ákvörðunin er í samræmi við spár greiningardeilda bankanna sem allar höfðu gert ráð fyrir því að Seðlabankinn héldi stýrivöxtum óbreyttum.

Greining Glitnis sagði í Morgunkorni sínu í gær að í ljósi viðvarandi verðbólguþrýstings vænti hún þess að bankastjórn Seðlabankans héldi stýrivöxtum bankans óbreyttum í 15,5% enn um sinn „til að varna víxlhækkun verðlags, launa og gengis erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu og veita verðbólguvæntingum traust akkeri,“ eins og það var orðað í Morgunkorni.

Greiningardeild Landsbankans tók í sama streng í Vegvísi í gær og benti á að í spá Seðlabankans síðan í júlíbyrjun um verðbólgu og stýrivexti er gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum fram á 1. ársfjórðung 2009.

Þá sagði Greiningardeild Landsbankans að þrátt fyrir að verðbólga hafi síðan verið yfir spá Seðlabankans, þá séu komnar fram vísbendingar um kólnun hagkerfisins, væntingavísitala Gallup sé í sögulegu lágmarki og kólnun á vinnumarkaði sé yfirvofandi. Þetta styðji þá spá að vöxtum yrði haldið óbreyttum.

Í Hálffimm fréttum Kaupþings var jafnframt spáð óbreyttum stýrivöxtum en þar var þó einnig tekið fram að vaxtahækkun væri ekki óhugsandi.

Ákvörðun Seðlabankans verður kynnt á fundi bankans kl. 11 í dag.

Næsta reglulega ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands um stýrivexti verður birt fimmtudaginn 6. nóvember n.k. samhliða útgáfu Peningamála.