Seðlabanki Íslands hóf gjaldeyriskaup í dag með það að markmiði að styrkja gjaldeyrisforðann. Keypti bankinn 1,5 milljónir evra á millibankamarkaði með gjaldeyri. Ef miðað er við að gengi evrunnar sé 153 er andvirði kaupanna í krónum tæplega 230 milljónir íslenskra króna. Óttast var að gjaldeyriskaup seðlabankans myndi veikja gengi krónunnar.  Áhrifin eru samt ekki veruleg og hefur gengisvísitalan lækkað um 0,4% það sem af er degi.

Seðlabankinn tilkynnti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi að bankinn myndi hefja gjaldeyriskaup á millibankamarkaði þann 31. ágúst. Markmið Seðlabankans með kaupunum er að auka þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni. Forðinn hefur fyrst og fremst verið byggður upp af lántökum.

„Gengishækkun krónu og lækkun áhættuálags á íslenskar fjárskuldbindingar gætu gefið svigrúm til hóflegra gjaldeyriskaupa. Tímasetning og magn slíkra kaupa verða ákveðin með tilliti til þess að áhrif á krónuna verði sem minnst," sagði í yfirlýsingu peningastefnunefndar í júní síðastliðnum.