Seðlabankinn hefur ákveðið að draga á tvíhliða lán sem samið var um við Danmörku, Finnland, Noreg, Pólland og Svíþjóð í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda. Heildarfjárhæðin nemur jafnvirði 639 milljóna evra og bætist sú fjárhæð við gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Sú upphæð jafngildir rúmlega 100 milljörðum íslenskra króna sé miðað við að gengi evrunnar sé 157 krónur.

Tilkynnt var um þetta nú undir kvöld um leið og Seðlabankinn greindi frá því að fjármálaráðherra ákvað að innleysa skuldabréf útgefin af ríkissjóði í evrum með gjalddaga 2011 og 2012. Alls námu kaupin 160 milljónum evra af fyrra bréfinu og 32 milljónum evra af síðara bréfinu, að nafnvirði.

Fram kemur í tilkynningunni að Már Guðmundsson seðlabankastjóri muni gefa nánari upplýsingar á fundi á morgun þar sem forsendur fyrir stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar verða kynntar.

Fyrsta lánið veitt 21. desember 2009

Rétt fyrir jólin 2009  var fyrsti hluti láns frá Norðurlöndunum greiddur til Íslands í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Um var að ræða 300 milljónir evra. Ísland hafði heimild til að nýta alls 444 milljónir evra fram að annarri endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Þeirri endurskoðun lauk 16. apríl sl. með samþykkt framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá kom fram að vegna samþykktarinnar væri gert ráð fyrir að lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndunum og Póllandi.

Gjaldeyrisforðinn um 600 milljarðar króna

Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 506 milljörðum króna í lok maí sl. og lækkaði um 200 milljónir króna milli mánaða. Erlend verðbréf hækkuðu um 4,3 milljarða og seðlar og innstæður lækkuðu um 3,7 milljarða króna í lok mánaðar. Að öllu óbreyttu frá lok maí stendur gjaldeyrisforðinn nú í um 606 milljörðum króna.