Tilraun Seðlabanka Íslands til að festa gengið í gjaldeyrisviðskiptum sínum hefur brugðist. Tilraunina lagðist bankinn í með það fyrir augum að aðrir aðilar á millibankamarkaði myndu fylgja á eftir og stunda sín viðskipti við hærra og trúverðugra gengi krónu og þannig skapa stöðugleika.

Tómlæti þeirrra aðila gagnvart þessari viðleitni Seðlabankans hefur hins vegar valdið því að bankinn hefur horfið frá fastgengi í viðskiptum sínum og fylgir nú markaði á ný. Margskipt gengi myndaðist á millibankamarkaði á þessu tímabili og þrátt fyrir beina hvatningu Seðlabankans til viðskiptavaka á markaði virðist bankinn hafa talað fyrir daufum eyrum. Gengi krónunnar hjá öðrum en Seðlabanka virðist hafa verið það fjarri gengi hans að bankinn hafi ekki séð tilgang í að halda þessari tilraun áfram.

Tilkynning þessa efnis birtist á Seðlabankavefnum um hádegisbilið í gær en þá hafði bankinn í u.þ.b. einn og hálfan sólarhring miðað við gjaldeyrisvísitöluna 175 og því selt evrur á rétt ríflega 131 krónu stykkið. Eftir tilkynninguna var opinber gengisvísitala Seðlabankans hins vegar komin upp í 230 og evran því rokin upp í tæpar 173 krónur. Í tilkynningunni sagði enn fremur að bankinn teldi stuðninginn við aðgerðir sínar hafa verið of lítinn og að hann myndi ekki gera frekari tilraunir í þessa veru að sinni.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .