Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að taka upp formlega vaxtaákvörðunardaga og jafnframt verður Peningamálum bankans fækkað, segir í tilkynningu Seðlabankans til Kauphallar Íslands.

Ákveðið hefur verið að gefa út þrjú hefti Peningamála í stað fjögurra, en í hverju hefti verður verðbólgu- og þjóðhagsspá.

?Misjafnt er hve oft seðlabankar með verðbólgumarkmið gefa út skýrslur með verðbólguspám. Algengast er að það sé gert fjórum sinnum á ári en dæmi eru um þrjár, svo sem í Noregi Gríðarleg vinna liggur að baki vönduðum verðbólgu- og þjóðhagsspám og gerð fjögurra spáa á ári gerir það m.a. að verkum að minna færi gefst til mikilvægra rannsókna til styrkingar spágerðinni en nauðsynlegt verður að telja. Seðlabankinn telur að útgáfa þriggja hefta Peningamála ásamt öðru efni sem bankinn birtir reglulega fullnægi kröfum um miðlun upplýsinga um mat bankans á framvindu og horfum í efnahags- og peningamálum," segir í tilkynningunni.

Greiningardeild Landsbanka Íslands telur breytingarnar jákvæðar og segir að þar með sé þeirri óvissu sem ríkt hefur um tímasetningar á vaxtaákvörðunum eytt.

?Auk þess sem nauðsynlegt verður að útskýra ákvarðanir um að breyta ekki vöxtum þegar að ekki er talin ástæða til slíks. Þessar breytingar eru klárlega til þess fallnar að auka gagnsæi peningastefnunnar og þar með trúverðugleika hennar," segir greiningardeild Landsbankans.