Seðlabanki Íslands mun á morgun birta ársfjórðungsrit sitt Peningamál. Bankinn hefur oft notað útgáfudag ritsins til að tilkynna um breytingu stýrivaxta enda hentugt að vísa í nýja verðbólguspá við rökstuðning. Greining Íslandsbanka segist reikna með því að bankinn muni á morgun tilkynna um enn aðra vaxtahækkunina og að þessu sinni verði hún annað hvort 0,5 eða 0,75 prósentustig.

Í ræðu sem Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, flutti í síðustu viku kom fram að merki um ofþenslu megi sjá víða í íslenskum þjóðarbúskap: Verðbólgan hefur farið vaxandi um nokkuð skeið, fasteignaverð hefur hækkað hratt, viðskiptahallinn er orðinn stór, vöxtur útlána er hraður, lánainnstreymi mikið og raungengið nálægt sögulegu hámarki. Arnór benti á að í sögulegu samhengi eru raunstýrivextir ekki sérstaklega háir um þessar mundir og því síður ef tekið er mið af þeim miklu umsvifum sem eru framundan og öðru því sem ýtt hefur undir eftirspurn.

"Verðbólgan er nú 4,7% og því talsvert yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Líklegt er að úr verðbólgu dragi á næstunni eða þegar áhrif gengishækkunar krónunnar fara að skila sér af fullum þunga í innflutningsverð. Miðað við að krónan haldist áfram jafn sterk og hún er nú ætti verðbólgan að vera komin niður að verðbólgumarkmiði bankans undir lok þessa árs. Hættan skapast hins vegar á næsta ári eða þegar áhrifa hækkunar krónunnar hættir að gæta og vaxandi innlend eftirspurnarspenna setur orðið mark sitt á verðbólguþróunina. Þá gæti verðbólgan aukist verulega á ný. Við þessu þarf Seðlabankinn að bregðast við í tíma en það tekur stýrivaxtabreytingar hátt nær 18 mánuði að hafa full áhrif. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til fyrri ummæla bankans um þörf á frekara peningalegu aðhaldi teljum við miklar líkur á því að Seðlabankinn muni tilkynna um hækkun stýrivaxta á morgun," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.