Í Peningamálum, riti Seðlabanka Íslands, árið 2007 sagði að áhættan af nýjum gengistryggðum lánum væri að aukast. Frá þeim tíma nefndu seðlabankastjórar það reglulega, meðal annars á blaðamannafundum í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar, hversu umfangsmikil þessi lántaka heimilanna væri orðin. Varað var við þessari þróun, þótt stór orð voru ekki notuð í því sambandi, og lögð áherslu á að vinda ofan af þessari stöðu.

„Gengisbundin lán bera lægri vexti en krónulán, en Seðlabankinn hefur ítrekað varað við slíkum lánum til þeirra sem ekki hafa tekjur í samskonar gjaldeyri," sagði Eiríkur Guðnason, þá seðlabankastjóri, í ræðu sem hann hélt í maí 2008. Vísaði hann meðal annars í Peningamál sem komu út í mars 2007 þar sem bent var á þetta.

Lánin tengd við franka og jen

„Erlend lántaka hefur aukist mjög undanfarin misseri og hefur hlutfall gengistryggðra útlána af heildarútlánum heimila aukist. Einnig hefur gjaldmiðlasamsetning þessara lána breyst á undanförnum mánuðum. Hlutur lágvaxtagjaldmiðla á borð við svissneska franka og japanskt jen hefur aukist," sagði í Peningamálum.

Greiðslubyrði getur breyst á skömmum tíma

Síðar sagði: „Slíkri lántöku fylgir bæði vaxta- og gjaldmiðlaáhætta. Þrátt fyrir sterkt gengi krónunnar hefur hlutur gengistryggðra lána haldið áfram að aukast. Eftir því sem raungengi krónunnar víkur lengra frá jafnvægisgildi sínu aukast líkur á lækkun krónunnar til lengri tíma litið og því eykst áhættan af nýjum gengistryggðum lánum. Miðað við gengisþróun undanfarinna missera hefur greiðslubyrði gengistryggðra lána þó að öllum líkindum verið léttari en af verðtryggðum innlendum lánum, en það getur breyst á skömmum tíma.“

Gagnrýnir seðlabankastjóra

Jóhannes Björn segir í pistli sem Egill Helgason birtir á síðu sinni að stjórnendur Seðlabankans vissu vel að gjaldeyristryggð lán voru ólögleg. Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri hefði setið í nefnd sem samdi frumvarp  til laga um vexti og verðtryggingu sem tóku gildi 1. júlí 2001. Gefur hann í skyn að samt hefði Seðlabankinn látið það viðgangast að krónulán væru í raun tengd gengi erlendra gjaldmiðla, sem dómstólar segja nú að hafi verið óheimilt.

Fleiri bera ábyrgð en Eiríkur

Vafalaust var um það ágreiningur hvort þessi lán voru lögleg eða ekki á sínum tíma. Og á meðan allt gekk vel kvörtuðu fáir yfir því að geta tekið krónulán sem tengt væri lágvaxtagjaldmiðlum eins og jenum og frönkum.

Þessir þingmenn áttu meðal annar þátt í því að samþykkja umrædd lög um vexti og verðtryggingu sem tóku gildi 2001.

Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni R. Árnason, Árni Johnsen, Ásta Möller, Björn Bjarnason, Davíð Oddsson, Drífa Hjartardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Geir H. Haarde, Guðjón Guðmundsson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðni Ágústsson, Gunnar Birgisson, Halldór Ásgrímsson, Halldór Blöndal, Hjálmar Árnason, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Jón Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Kristinn H. Gunnarsson, Magnús Stefánsson, Ólafur Örn Haraldsson, Páll Magnússon, Páll Pétursson, Pétur H. Blöndal, Sigríður A. Þórðardóttir, Sólveig Pétursdóttir, Sturla Böðvarsson, Sverrir Hermannsson, Tómas Ingi Olrich, Valgerður Sverrisdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir