Bankastjórn Seðlabankans taldi tímabært að lækka stýrivexti sína í dag þar sem bankinn telur að verðbólga hafi nú náð hámarki og horfur væru á minni verðbólgu í ár en spáð var í nóvember síðastliðnum.

Eins og fram kom í morgun tilkynnti bankastjórn Seðlabankans að stýrivextir yrðu áfram óbreyttir í 18%.

Bankastjórnin bar afstöðu sína undir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) en framkvæmdastjóri hans hvatti hins vegar til þess að vöxtum yrði haldið óbreyttum að sinni m.a. vegna tímabundinnar óvissu í íslenskum stjórnmálum.

Þetta kemur fram í Peningamálum en þar er tekið fram að bankastjórn þykir rétt að taka mið af þessum tilmælum.

„Mat Seðlabankans er að með hjaðnandi verðbólgu muni gefast færi á að lækka stýrivexti töluvert hratt án þess að stefna markmiðum bankans í gengis- og verðlagsmálum í tvísýnu,“ segir í Peningamálum.

Þá kemur fram að hugsanlegt er að Seðlabankinn fjölgi ákvörðunardögum um vexti frá því sem áður hafði verið tilkynnt til þess að vaxtaþróunin fylgi verðbólguþróuninni eftir með eðlilegum hætti og einstakar vaxtabreytingar verði ekki óþægilega stórar.

„Vegna þeirra tímabundnu hafta sem sett voru á fjármagnshreyfingar til og frá landinu og upptöku skilaskyldu gjaldeyris hafa tengsl stýrivaxta og gengis að nokkru leyti rofnað um sinn,“ segir í Peningamálum.

„Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að taka tillit til þessara tengsla þegar hugað er að vaxtaákvörðunum til lengri tíma þar sem gengið þarf að hafa nægilegan stuðning frá vöxtum þegar losað verður um gjaldeyrishömlur.“