Líftæknifyrirtækið deCODE genetics hefur tekið við skuldbindandi kauptilboðum frá bandarískum stofnanafjárfestum að andvirði 65 milljónir Bandaríkjadala með breytirétti í hlutafé. Félagið mun nýta fjármagnið til lyfjaþróunar, þróunar greiningartækja og annarra þróunarverkefna. Bréfin eru seld með afföllum og munu skila félaginu sem svarar 43 milljónum Bandaríkjadala. Bréfin eru seld á vöxtum sem jafngilda 350 punktum yfir millibankavöxtum eða 3,5%.

Hægt verður að breyta bréfunum í hlutafé á 14 Bandaríkjadali á hlut og eru það sambærileg kjör og félagið bauð í skuldabréfaútgáfu sinni í apríl 2004. Um leið hefur félagið boðið viðbótarútgáfu að andvirði 15 milljónir Bandaríkjadala með sömu kjörum. Á föstudaginn verður gengið formlega frá samningum um þessa fjármögnun.