„Þegar ég seldi hafði ég því engar upplýsingar sem markaðurinn hafði ekki,“ segir Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í svari til DV spurður um sölu á hlutabréfum hans í Landsbankanum um mánuði fyrir þjóðnýtingu bankans.

DV greinir frá því að í dag að Baldur hafi selt hlutabréf í Landsbankanum nokkrum dögum eftir að hann sat sem fulltrúi ráðuneytisins á margfrægum fundi Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.

DV segist hafa átt í tölvupóstsamskiptum við Baldur vegna málsins.

„Það er misskilningur að fundurinn í London hafi snúist um stöðu Landsbankans,“ segir í svari Baldurs við fyrirspurn DV um stöðu hans á fundi Björgvins G. Sigurðssonar og Alistair Darling þann 2. september.

Baldur átti þá hlut í bankanum og sat fundinn sem fulltrúi fjármálaráðuneytisins.

Nokkrum dögum eftir fundinn seldi hann hlutabréf sín og var það um mánuði áður en ríkið þjóðnýtti bankann, að því er segir í DV. Þar koma ekki fram nákvæmar dagsetningar eða upplýsingar um fjárhæðir.

Baldur segir að fundur Björgvins og Darling hafi snúist um hvernig hægt yrði að flytja innistæður á innlánsreikningum í útibúi Landsabankans í London yfir í dótturfélag.

„Þegar ég seldi hlutabréf mín í Landsbankanum nokkru síðar lá ekki annað fyrir en það mál væri að leysast,“ hefur DV eftir Baldri.

„Þá höfðu nýlega birst fréttir í íslensum blöðum um errfiða stöðu Landsbankans, meðal annars vegna fyrirsjáanlegra stórra útlánatapa hans sem leiddu til þess að hlutabréf í bankaum lækkuðu. Þegar ég seldi hafði ég því engar upplýsingar um Landsbankann sem markaðurinn hafði ekki.“

Í DV kemur fram að blaðið hafi spurt Baldur um hve stóran hlut hann hafi átt í Landsbankanum og á hvaða gengi hann hafi selt og hvort viðskiptaráðherra og eða fjármálaráðherra hafi vitað um eignaraðild hans á fundinum með Darling þann 2. september.

Blaðið hafði ekki fengið svar við þeim spurningum.