„Ég tók ákvörðun um að selja hlutabréf mín í Landsbankanum eftir að birst höfðu fréttir í íslenskum blöðum, þ.m.t. í Viðskiptablaðinu, um erfiða stöðu bankans, m.a. vegna fyrirsjáanlegra stórra útlánatapa. Ég hafði þá engar upplýsingar um Landsbankann sem markaðurinn hafði ekki,“ segir Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, í svari til Viðskiptablaðsins um sölu á hlutabréfum sínum í Landsbankanum.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í gær seldi Baldur bréf sín um það bil tveimur vikum eftir að hann sat ásamt viðskiptaráðherra fund með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, 2. september sl. þar sem m.a. var rætt um flutning á innistæðum á innistæðureikningum Landsbankans í Bretlandi yfir í þarlent dótturfélag.

Í svari sínu vísar Baldur einnig til þess að eiginfjárstaða Landsbankans og afkoma hafi verið með ágætum á þessu ári.

Fram á síðustu stundu hafi það verið hald manna að Landsbankinn myndi standa af sér þá ófyrirsjáanlegu stöðu sem upp kom þegar lánalínur lokuðust enda myndi ekki reyna að ráði á endurfjármögnunarþörf bankans fyrr en á næsta ári.

„Það mætti ætla af fréttum þessa dagana að það hafi verið búið að liggja fyrir í nokkurn tíma að Landsbankinn væri að fara á höfuðið. Þannig var það auðvitað alls ekki,“ segir í svari Baldurs.