Ingvi Týr Tómasson, framkvæmdastjóri Hamborgarbúllunnar, hefur starfað í veitingageiranum með föður sínum, Tómasi Tómassyni, eða Tomma á Hamborgarabúllunni, með hléum frá unglingsárunum. Aðalstarf Ingva undanfarna tvo áratugi hefur  verið fyrir félagið Strax GmbH sem hann stofnaði ásamt öðrum árið 1995. Félagið er með starfsemi í tólf löndum og er skráð á markað í Svíþjóð. Næstu misserum stefnir Ingvi á að verja meiri tíma í rekstur Tommi´s Burger Joint – Hamborgarabúllunnar með föður sínum. „Við erum búnir að vera saman í þessu frá byrjun og við vinnum vel saman,“ segir Ingvi. Tómas er fljótur að grípa þennan bolta á lofti. „Hann ræður og ég segi bara já og amen,“ segir Tómas kíminn.

„Það er stundum talað um að þegar viðskiptafélagar séu sammála um allt sé annar þeirra óþarfur. Það er mjög mikilvægt að það sé tekist á, en í öllum aðalatriðum erum við sammála. Við erum með álíka hugsun um gæði, kúnnann og það sem skiptir máli í rekstrinum“ segir Ingvi. „Það þarf að gera þetta af alúð, passa upp á starfsfólkið okkar, þetta stendur og fellur með stöðugleika, gæðum og þjónustu,“ segir Ingvi. „Og sanngjarnt verðlag, ekki endilega ódýrt en sanngjarnt,“ bætir Tómas við

Ætlaði að verða ríkur fasteignasali í Flórída

Ingvi segir að Strax hafi orðið til eftir að hann flutti til Bandaríkjanna árið 1995. „Ég var búinn að vinna í fimm ár hérna heima á Hard Rock og Hótel Borg með Tómasi og var að vinna mjög mikið. Á föstudögum mætti ég klukkan átta á morgnana og var búinn klukkan sex um morguninn og byrjaði svo aftur um ellefu leytið og var búinn sex á sunnudagsmorgni. Það var mjög gaman og reynsluríkt en ég vildi skoða heiminn og fá meiri reynslu,“ segir hann. „Ég var búinn að lesa það að flestallir milljónamæringar í Ameríku væru í fasteignum, þannig að ég flutti til Miami árið 1995 og ætlaði að verða viðskipta maður í fasteignum og byrja sem fasteignasali. Óli Bieltvedt, vinur minn, bjó í Hong Kong og hafði þá samband og sagði: „Ég er í Hong Kong með aðgang að Asíu og þú ert í Miami, með aðgang að Suður-Ameríku.“ Ég sló til. Fyrsta árið ferðaðist ég um Suður-Ameríku með allskonar varning, sem voru afgangar af lagerum í Kína, mest kvenfatnað. Við hittum á aðila í Venesúela sem voru að reka þrjátíu kvenfataverslanir og fyrsta árið seldi ég kvenfatnað fyrir meira en milljón dollara. Þetta var mjög sérstakt. Ég talaði enga spænsku og var að ferðast um Suður-Ameríku með töskur af öllum þessum varningi sem ég var að selja, bíðandi á biðstofum með mönnum með hænur og ýmislegt fleira eftir að fá að hitta eigendurna. Eftir að ég fékk fyrstu pantanirnar þá var búið að selja dótið þannig að þetta var rosalega erfitt. Svo þegar ég var að ferðast í Argentínu þá vantaði þá batterí í bílasíma,“ segir Ingvi sé ástæðan fyrir því að Strax færði sig í aukahluti í fyrir farsíma. „Ég búinn að vera að gera aukahluti í farsíma í yfir 20 ár, en en nú verður áherslan á hamborgarana þar sem ég er veitingamaður inn við beinið.“