Elon Musk forstjóri Tesla seldi hlutabréf í félaginu fyrir alls 6,9 milljarða dala – ígildi ríflega 900 milljarða króna – í liðinni viku. Bréfin lækkuðu um yfir 15% í viðskiptum vikunnar, en hafa þrátt fyrir það hækkað um 27% síðastliðinn mánuð.

Musk spurði fylgjendur sína á Twitter um síðustu helgi, um 63 milljón talsins, hvort hann ætti að selja 10% hlutar síns í rafbílaframleiðandanum, með vísan í umræðu um skattleysi óinnleysts hlutabréfahagnaðar. Með því að selja hlutinn innleysi hann hagnaðinn og greiði þar með fjármagnstekjuskatt af honum. Hann hét því ennfremur að fara að niðurstöðum könnunarinnar, en 58% svarenda svöruðu játandi.

Sjá einnig: Tesla hækkað þrátt fyrir sölu Musk

Tekjuskattsskuldbinding kunni að vera raunveruleg ástæða sölunnar
Bandaríski fréttamiðillinn CNBC bendir hinsvegar á að Musk hafi þegar skuldað um 15 milljarða dala í tekjuskatt vegna kauprétta sem hann fær greitt í samkvæmt samkomulagi við félagið frá árinu 2012, og hafa skilað honum 28 milljörðum dala.

Í ofanálag hefur frumkvöðullinn og auðjöfurinn tekið lán með veði í bréfum sínum í félaginu, sem bankarnir gætu farið fram á að hann seldi, ef bréfin lækkuðu mikið, að því er fram kemur í gögnum sem fyrirtækið skilaði til verðbréfaeftirlitsins fyrir síðastliðinn ársfjórðung.

Ekki hálfnaður með loforðið
Salan er ein sú stærsta hjá forstjóra fyrirtækis á bréfum í því sem um getur, enda hleypur virði hlutabréfa Musk í Tesla – en hann stofnaði félagið árið 2003 – á hundruðum milljarða dala, og hefur gert hann að ríkasta manni heims. Nær allur hans auður er bundinn í eignarhlutnum, sem nam yfir 17% um síðustu helgi þegar hann viðraði hugmyndina. Heildarmarkaðsvirði Tesla er rúm billjón dala í dag.

Musk er því hvergi nærri búinn með söluna, hyggist hann standa við stóru orðin. Heildarsalan í vikunni nær ekki 7 milljónum hluta, en hann þarf að selja alls um 17 milljónir hluta til að ná 10% markinu sem hann sjálfur stakk upp á. Miðað við gangvirði bréfanna við lokun markaða í gær munu 10 milljón hlutir skila honum ríflega 10 milljörðum dala – um 1.400 milljörðum króna.

Umfjöllun Wall Street Journal .