*

laugardagur, 24. júlí 2021
Erlent 12. maí 2021 09:17

Seldi í Amazon fyrir 6,7 milljarða dala

Jeff Bezos seldi hlutabréf í Amazon fyrir rúmlega 832 milljarða króna í síðustu viku.

Ritstjórn
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon
epa

Jeff Bezos, stofnandi Amazon, hefur selt hlutabréf í fyrirtækinu fyrir 6,7 milljarða dala í mánuðinum, sem jafngildir um 832 milljörðum íslenskra króna. Hann hefur ekki selt jafnmikið af hlutabréfum í netrisanum frá því að hann skildi við MacKenzie Scott í byrjun árs 2019. Marketwatch greinir frá.

Bezos, sem mun láta af störfum sem forstjóri Amazon síðar á árinu, seldi rúmlega tvær milljónir hluti, eða um 0,4% hlut, á tímabilinu 3.-10. maí. Salan var fyrirfram ákveðin í gegnum 10b5-1 söluáætlun (e. trading plan), samkvæmt gögnum frá Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna. 

Hann hefur átt það til að selja stóran hlut í Amazon stuttu eftir uppgjör en fyrirtækið greindi í síðustu viku frá 8,1 milljarða dala hagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Bezos seldi í Amazon fyrir rúmlega 3-4 milljarða dala í febrúar og nóvember á síðasta ári.

Samtals seldi hann hlutabréf fyrir meira en níu milljarða dala árið 2020 en hann hefur áður gefið út að um einn milljarður mun fara í geimflaugafyrirtækið sitt, Blue Origin. Bezos trónir á toppi auðmannalista Forbes en auður hans er metinn á rúmlega 187,5 milljarða dala.

Stikkorð: Jeff Bezos Amazon