*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 4. október 2021 12:19

Seldi í Marel og keypti í Íslandsbanka

Capital Group, næst stærsti hluthafi Íslandsbanka kaupir í bankanum fyrir milljarð, en hinn erlendi hornsteinsfjárfestirinn hefur minnkað við sig.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Bandaríska fjárfestingafélagið Capital Group, hefur bætt við sig 0,47% hlut í bankanum sem er andvirði ríflega 1,1 milljarðs króna miðað við núverandi gengi hluta í bankanum samkvæmt uppfærðum hluthafalista Íslandsbanka. Hlutur Capital Group hækkar úr 3,85% í 4,32% og er félagið annar stærsti hluthafinn á eftir ríkissjóði sem fer með 65% hlut. Markaðsvirði eignarhlutar Capital Group í Íslandsbanka nemur 10,4 milljörðum króna. Kaup Capital Group eru fyrstu viðskipti félagsins með bréf í Íslandsbanka frá skráningunni.

Capital Group seldi í síðustu viku 600 milljóna króna hlut í Marel og er sem stendur þriðji stærsti hluthafi Marel með tæplega 5% hlut.

RWC minnkað við sig

Capital Group var annar tveggja erlendra hornsteinsfjárfesta í hlutafjárútboði Íslandsbanka fyrir skráningu bankans á markað í júní ásamt RWC Asset Management. RWC hefur selt 0,26% hlut í Íslandsbanka frá skráningunni og lækkað hlutdeild sína úr 1,54% í 1,28%. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í sumar hafði RWC um miðjan júlí selt um 2 milljónir hluta bankanum sem þá voru um 200 milljóna virði. Síðan þá hefur RWC selt 3,4 milljónir hluta til viðbótar sem er um 400 milljóna króna virði miðað við núverandi gengi bréfa bankans. 

Í kjölfar útboðsins greindi Viðskiptablaðið frá því að margir erlendir fjárfestingasjóðir sem fengu úthlutun í útboðinu hefðu á fyrstu dögum viðskipta með bréfin selt öll eða megnið af hlutum sínum í bankanum en á móti hefðu innlendir fjárfestar, sér í lagi lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir bætt við sig hlutum, sem vakti upp spurningar um úthlutun í útboðinu. Þá keypti þjóðarsjóður frá Abú Dabí um 0,9% hlut í bankanum sem þá var metinn á um 1,8 milljarða króna.

Lífeyrissjóðir keypt meira

Innlendu hornsteinsfjárfestarnir, lífeyrissjóðirnir Gildi og Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), hafa bætt við sig 1% hlut hvor frá lokum útboðsins. Sjóðirnir keyptu hvor um sig 2,3% hlut í bankanum í útboðinu. LIVE á nú 3,36% hlut í Íslandsbanka og Gildi 3,34% hlut samkvæmt uppfærðum lista yfir þá sem eiga yfir 1% hlut í Íslandsbanka. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur einnig bætt við sig en LSR fékk ríflega 1,5% hlut úthlutað í útboðinu en á nú 2,92% hlut í bankanum.

Bréf í Íslandsbanka standa nú í 120 krónum á hlut og hafa hækkað um 52% frá hlutabréfaútboði í júní þegar ríkið seldi bréfin á 79 krónur á hlut. Markaðsvirði bankans í heild hefur því hækkað úr 158 milljörðum króna í 240 milljarða króna frá skráningunni.

Stikkorð: Íslandsbanki útboð Capital Group RWC