Bjarni Benediktsson forsætisráðherra seldi fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. tIl 6. október 2008, skömmu fyrir fall bankakerfisins, að því er fram kemur í umfjöllunar The Guardian , Stundarinnar og Reykjavik Media. Bjarni óskaði eftir að hlutirnir yrðu seldir og færðir í Sjóði 5 og 7 hjá Glitni 2. október 2008, en ekki yrði að fullu gengið frá viðskiptunum fyrr en mánudaginn 6. október samkvæmt gögnum innan úr Glitni sem fjölmiðlarnir hafa undir öndum.

Bjarni er sagður hafa óskað eftir sölunni á hlutdeildarskírteinum í Glitni fimmtudaginn 2. október, en þann dag hafi Bjarni selt í sjóðnum fyrir 30 milljónir króna og svo 21 milljón króna til viðbótar þann 6. október.

Bjarni sem þá var þingmaður, og sat efnahags- og skattanefnd Alþingis er einnig sagður hafa miðlað upplýsingum til starfsmanna Glitnis um vinnu FME þann 6. október, klukkan 14:15, eftir að mörkuðum var lokað. Vitnað er í tölvupóst sem Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Glitnis hafi sent á Atla Rafn Björnsson, aðstoðarmann Lárusar Weldings, bankastjóra Glitnis þann 6. október: „Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“ Á þessum tíma var Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME.

Í samtali við Guardian segir Bjarni að hann hafi ekki búið yfir neinum innherjaupplýsingum á þessum tíma og málin hafi verið rannsökuð oftar en einu sinni af opinberum aðilum. Eftir fall Lehman Brothers um miðjan september hafi öllum mátt verið ljóst að staða fjármálakerfisins hefði verið bág. „Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma,“ er haft eftir Bjarna.