OTEE 2020 ApS, félag í eigu Davíðs Helgasonar og Þjóðverjans Joachim Ante, stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Unity, seldi alls 300 þúsund hluti í fyrirtækinu fyrir 37,5 milljónir dala í lok ágúst, eða um 4,8 milljarða króna. Davíð á 35,3% hlut í OTEE og því nemur hlutdeild hans í sölunni um 1,7 milljörðum króna.

Auk þess seldi Davíð hlutabréf í Unity á eigin vegum, sem hann fékk í þóknun fyrir stjórnarstörf í ágúst 2020, fyrir tæplega 200 milljónir króna. Samtals fékk Davíð því um 1,9 milljarða króna í sinn hlut fyrir sölu á hlutabréfum í Unity í ágúst.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í sumar að OTEE seldi 600 þúsund hluti í Unity fyrir 55,5 milljónir dala í maí, eða um 6,7 milljarða króna miðað við þáverandi gengi krónunnar. Alls hefur Davíð því selt beint og óbeint í Unity fyrir 4,3 milljarða króna í ár. Meðalsölugengi í viðskiptunum í ágúst var tæplega 35% hærra en í maí en hlutabréfaverð Unity hækkaði töluvert eftir síðasta uppgjör.

OTEE á eftir söluna 28,6 milljónir að nafnvirði í Unity, sem jafngildir um 10,1% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu. Miðað við gengi Unity nemur virði eignarhlutar OTEE 3,9 milljörðum dala, jafnvirði nærri 500 milljarða króna. Davíð á því 3,6% hlut í Unity, í gegnum OTEE, að markaðsvirði tæplega 174 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .