Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, seldi hálft prósent í VÍS í síðasta mánuði samkvæmt uppfærðum hluthafalista. Út frá meðalgengi VÍS má gera ráð fyrir að Bjarni hafi fengið um 183 milljónir fyrir söluna. Sjávarsýn er eftir sem áður fimmti stærsti hluthafi VÍS með 5,3% hlut, sem er um 2,1 milljarður króna að markaðsvirði.

Bjarni keypti á móti 0,25% hlut í Festi í október fyrir 172 milljónir ef miðað er við meðalgengi félagsins í mánuðinum. Í lok október átti Sjávarsýn 1,6% hlut í Festi að markaðsvirði 1,2 milljarðar.

Stærsta eign Sjávarsýnar er þó í Iceland Seafood International (ISI). Bjarni, sem er forstjóri ISI, er stærsti hluthafi félagsins með 10,8% hlut. Markaðsvirði eignarhlutarins nemur tæplega 4,6 milljörðum króna í dag.

Sjávarsýn er einnig móðurfélag Gasfélagsins og Sjávargrundar sem á hreinlætisvörusöluna Tandur. Þá fer Sjávarsýn með 51% hlut í Ísmar.