Scott London, fyrrverandi meðeigandi í endurskoðunarfyrirtækinu KPMG í Bandaríkjunum, hefur verið ákærður fyrir innherjasvik, en eins og greint hefur verið frá áður, hefur London viðurkennt að hafa látið félaga sinn fá upplýsingar um viðskiptavini fyrirtækisins. Mun London hafa fengið 50.000 dali, andvirði um 5,9 milljóna króna, í peningum og gjöfum. Þar á meðal er Rolex armbandsúr sem metið er á 12.000 dali.

Félagi hans, sem fékk ábendingar um kaup eða sölu á hlutabréfum fyrirtækja sem London sinnti fyrir KPMG, mun hafa grætt 1,2 milljónir dala á hlutabréfaviðskiptunum.

félaginn er skartgripasali í Los Angeles að nafni Bryan Shaw. Hann var þó ekki meiri vinur London en svo að fyrr á þessu ári leyfði hann alríkislögreglunni að taka upp símtöl hans við London og var með upptökutæki á sér þegar hann hitti London til að fá hjá honum upplýsingar.

London hefur áður sagt að hann hafi lítið fengið í skiptum fyrir upplýsingarnar annað en afslátt af úri og eitt til tvö þúsund dala peningapakka í örfá skipti. Sú saga hefur því ekki verið fullkomlega í samræmi við sannleikann.