*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 23. júní 2019 13:01

Seldi leitarvélar fyrir 378 milljarða

Frumkvöðullinn Terry Jones var staddur hér á landi á dögunum og miðlaði reynslu sinni til íslenskra frumkvöðla.

Sveinn Ólafur Melsted
Á löngum starfsferli hefur Terry Jones meðal annars stofnað ferðaþjónustufyrirtækin Travelocity og KAYAK.
Haraldur Guðjónsson

Bandaríski frumkvöðullinn Terry Jones var nýverið staddur hér á landi á vegum sendiráðs Bandaríkjanna. Hann flutti meðal annars erindi í Nýsköpunarmiðstöð Íslands, þar sem hann miðlaði reynslu sinni til íslenskra frumkvöðla, auk þess sem hann var á meðal fyrirlesara á Startup Iceland 2019.

Terry hefur verið viðloðandi ferðaþjónustu og frumkvöðlastarfsemi í áratugi og komið að stofnun fimm nýsköpunarfyrirtækja. Hann stofnaði meðal annars Travelocity og KAYAK, sem eru leitarvélar sem gera fólki kleift að finna flug, gistingu, bílaleigubíla og fleira tengt ferðalögum á sem hagstæðustum kjörum. Undanfarin ár hefur Terry einbeitt sér að bókaskrifum og því að koma fram sem fyrirlesari. Þá rekur hann ráðgjafafyrirtækið ON Inc., sem aðstoðar fyrirtæki við að innleiða stafrænar lausnir, auk þess að sitja í stjórn nokkurra félaga.

Terry segir að það hafi í raun verið tilviljun að hann hafi hafið störf innan ferðaþjónustugeirans. Að loknu háskólanámi hafi hann ekki vitað hvað hann langaði að leggja fyrir sig. Hann hafi þó reiknað með að verða sendur til að sinna herþjónustu í Víetnam, en það fór svo að honum var meinað að fara þangað sökum sjónskekkju.

„Meðan ég var að ákveða næstu skref fór ég í heimsreisu með félögum mínum, sem var mikil og góð reynsla. Þegar við snerum aftur heim þá ákvað ég að ég vildi starfa innan ferðabransans. Ég hóf störf sem ferðaráðgjafi og eftir hálft ár fékk þáverandi yfirmaður minn hugmynd að nýju fyrirtæki sem við stofnuðum svo saman. Þetta nýja fyrirtæki bauð upp á ferðir frá Bandaríkjunum til Austur-Evrópu. Á þessum tíma höfðu aðeins fjögur fyrirtæki innan Bandaríkjanna leyfi til að bjóða upp á ferðir þangað, við vorum því það fimmta í röðinni."

Ofangreint fyrirtæki var fyrsta frumkvöðlafyrirtæki sem Terry stofnaði og var hann á þessum tíma aðeins 22 ára gamall. Að sögn Terry gekk reksturinn vel og varð fyrirtækið fimmtugasta stærsta ferðaþjónustufyrirtæki Bandaríkjanna.

Stofnaði vinsælar leitarvélar

„Að þessu loknu færði ég mig yfir í annað sprotafyrirtæki sem seldi tölvur til ferðaskrifstofa. Eftir að hafa starfað þar í eitt ár var fyrirtækið selt til American Airlines og því var ég allt í einu farinn að vinna hjá risastóru fyrirtæki. Ég vann þar í 18 ár og sinnti ýmsum störfum þar í markaðssetningu og upplýsingatækni, meðal annars sem yfirmaður upplýsingatæknimála. Innan fyrirtækisins var lítil deild sem einblíndi á netlausnir og ég endaði á að stýra þeirri deild. Síðar meir keypti ég ásamt fleirum umrædda deild af American Airlines og var þetta upphafið að Travelocity," segir Terry.

Terry hélt um stjórnartaumana hjá Travelocity í sex ár, eða þar til félagið var selt fyrir 1,2 milljarða dollara. „Í kjölfar sölunnar lét ég af störfum og fór að einbeita mér að því að skrifa bækur og koma fram sem fyrirlesari. Samhliða því starfaði ég hjá fjárfestingasjóði og fór að sitja í stjórnum fyrirtækja."

Nokkru síðar stofnaði Terry KAYAK. Hann varð stjórnarformaður félagsins og gegndi því starfi í átta ár. Rétt eins og með Travelocity þá var KAYAK selt og nam verðmiðinn 1,8 milljörðum dollara. Að sögn Terry hafa um 60 milljónir manns náð í KAYAK smáforritið, sem gerir það að vinsælasta ferðasmáforriti í heimi.

Fáir frumkvöðlafjárfestar á Íslandi

Terry kveðst hafa heillast af þeim íslensku nýsköpunarfyrirtækjum sem hann hitti í heimsókn sinni. Hann bendir þó á að vegna smæðar innlenda markaðarins geti það reynst þrautinni þyngri fyrir fyrirtækin að finna fjárfesta.

„Mér hefur þótt gaman að sjá hvað þau íslensku frumkvöðlafyrirtæki sem ég hef hitt eru ólík og hvað þau dreifast niður á margar atvinnugreinar. Mörg þessara fyrirtækja einblína ekki einungis á innlenda markaðinn heldur einnig þann erlenda og þeirra helsta áskorun snýst um að afla fjármagns. Á jafn litlum markaði og þeim íslenska er nokkuð takmarkaður fjöldi af fjárfestum sem fjárfesta í frumkvöðlafyrirtækjum. Því þurfa þessi fyrirtæki í mörgum tilfellum að reyna að afla sér fjármagns erlendis. Það er alls ekki auðvelt og þau þurfa að læra að gera það. Auk þess þurfa fyrirtækin að læra inn á alþjóðlega markaðssetningu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér