Apple seldi rúmlega tólf milljón Apple Watch snjallúr á því ári sem liðið er frá því að það var fyrst gefið út. Þetta er fyrsta ár græjunnar í sölu en það má kalla söluna ágæta ef miðað er við fyrsta ár snjallsíma fyrirtækisins, iPhone, sem seldi sex milljón tæki á sínu fyrsta ári. Þetta kemur fram í frétt MarketWatch .

Að gefnu 500 Bandaríkjadala meðalverði á hvert úr  - sem er breytilegt eftir stærð og fleiru - má því áætla að snjallúr hafi verið seld fyrir um sex milljarða Bandaríkjadala - 744 milljarða íslenskra króna. Það er þrefaldur árlegur hagnaður Fitbit, eins helsta samkeppnisaðila Apple í geiranum.

Sala á Apple Watch snjallúrinu var um 61% allra seldra snjallúra á árinu 2015, samkvæmt greiningarstofunni IDC. Tölurnar sem um ræðir í fréttinni eru ekki frá Apple, sem hefur ekki látið frá sér neina tölfræði enn sem komið er, heldur eru þær áætlanir. Sumir hafa kallað frumsöluár snjallúrsins klúður en samkvæmt könnun sem framkvæmd var nýlega vestanhafs eru 93% notenda úrsins mjög sáttir við það.