Gríðarleg samkeppni ríkir nú á flestum skyrmörkuðum og á árinu 2021 seldu samstarfsaðilar Íseyjar útflutnings tæplega 20 þúsund tonn af skyri. Ísey, sem er í 80% eigu Auðhumlu og 20% eigu Kaupfélags Skagfirðinga, selur skyr á um 20 mörkuðum í dag og jafnan undir vörumerkinu Ísey Skyr.

Einar Einarsson, forstjóri Íseyjar útflutnings, segir verkefni félagsins að aðgreina sig frá stórum aðilum sem séu að markaðssetja skyr með vísun í Ísland. Undirstrika þurfi í allri framsetningu að Ísey skyr sé upprunalega íslenska skyrið.

„Öll stærstu mjólkurfyrirtæki heimsins eru farin að framleiða skyr og vísa mörg af þeim í hefðina fyrir skyri hér á landi. Íslenska skyrið kom hingað með landnámsmönnunum og á sér ellefuhundruð ára sögu. Framan af var skyrið búið til á flestum ef ekki öllum sveitabæjum landsins. Samhliða tæknivæðingu var síðan farið að framleiða skyr í mjólkurbúum hér á landi fyrir um 90 árum síðan," segir Einar.

Hann er ekki endilega þeirrar skoðunar að Ísey hafi verið of seint að sækja inn á erlenda markaði með skyrið og þannig misst forskot til annarra félaga. Það hafi kosti og galla að vera fyrst inn á markað með nýja vöru sem neytendur þekki ekki.

„Það er mjög kostnaðarsamt að fjárfesta í nýjum markaði. Á þeim mörkuðum sem ekki hefur verið selt skyr fyrir þarf að vekja athygli neytenda á vörunni og upplýsa þá um eiginleika og styrkleika hennar. Í því felst til dæmis að upplýsa neytendur um hver munurinn á skyri og  jógúrt sé. Eiginleikar skyrsins eru eftirsóttir í dag hjá neytendum. Varan er próteinrík og bragðið og áferðin höfðar til fólks. Það er ástæðan fyrir því að stórir erlendir aðilar eins og Arla og Danone hafa hafið framleiðslu á sínum eigin skyrvörum. Við höfum staðið okkur vel í samkeppni við þessa stóru aðila og sjáum mikil tækifæri framundan."

Einar segir Ísey starfa eftir nokkrum viðskiptamódelum en á meðal þeirra eru svokallaðir vörumerkja- og leyfissamningar. Á þeim mörkuðum aðstoðar Ísey fyrirtæki sem eru annaðhvort þegar að framleiða mjólkurafurðir eða að byrja frá grunni. Ísey veitir þeim aðstoð við allt ferlið, allt frá ráðgjöf við fjárfestingu í tækjum og búnaði, framleiðsluna á skyrinu og allt sem snýr að sölu og markaðssetningu vörunnar á viðkomandi markaði.

„Við aðstoðum við allt frá A til Ö og veitum þeim aðgang að skyrgerlinum okkar þannig að þeir geti framleitt skyr sem stenst okkar kröfur. Þá fá þessi fyrirtæki leyfi til að nota Ísey vörumerkið á viðkomandi markaði og aðgang að öllu markaðsefninu okkar. Japan og Nýja-Sjáland eru dæmi um leyfismarkaði.

Á Bandaríkjamarkaði styðst Ísey í raun við annað viðskiptamódel. Þar á félagið hlut í fyrirtæki sem heitir Icelandic Provisions sem selur, markaðssetur og lætur framleiða íslenskt skyr þar í landi.

„Við erum alltaf að leita tækifæra til að flytja út skyr sem framleitt er hér á landi á erlenda markaði. Á síðasta ári fluttum við skyr sem framleitt er hjá MS á Selfossi til Sviss, Þýskalands, Danmerkur og Færeyja. „Við seldum tæplega 900 tonn til Sviss í fyrra,"segir Einar og bætir við að Bandaríkin séu stærsti markaðurinn fyrir íslenskt skyr.

„Þar seldum við 5.800 tonn. Þar á eftir var Noregur með rúmlega 4.000 tonn og svo Danmörk og Finnland. Þeir markaðir sem eru í hvað mestum vexti eru Frakkland og Holland. Þar erum við búnir að vera tiltölulega skamman tíma og skyrið hefur fengið gífurlega góðar viðtökur." Þá er horft til frekari vaxtartækifæra í Suður-Ameríku og Asíu, meðal annars í Kína.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .