Alls bárust 86 tilboð upp á 32,3 milljónir evra, jafnvirði tæpra 5 milljarða króna í síðasta gjaldeyrisútboði Seðlabankans í dag. Hins vegar var tilboðum tekið upp á 28,4 milljónir evra eða sem nemur rúmum 4,3 milljörðum króna. Gengið var 181 króna fyrir hverja evru. Útboðið fólst í því að keyptar voru evrur fyrir krónur.

Fram kemur í umfjöllun Seðlabankans um málið að sem greiðslu fyrir gjaldeyrinn í ríkisverðbréfaleiðinni fá fjárfestar
afhent verðtryggð ríkisverðbréf RIKS 33 0321. Samtals voru seld bréf í flokknum fyrir 82 milljónir króna að nafnvirði. Sem greiðslu fyrir gjaldeyrinn í fjárfestingarleiðinni fá fjárfestar íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi. Samtals voru keyptar evrur sem námu 5,1 milljarði króna í útboðunum.

Á sama tíma bauð Seðlabankinn upp á kaup á krónum fyrir evrur. Öll tilboð voru á sama gengi eða 181 krónu fyrir hverja evru. Alls bárust 20 tilboð upp á 11,2 milljarða króna og var tilboðum tekið fyrir 5,1 milljarð. Tilboð sem bárust á genginu 181 krónur fyrir hverja evru voru lækkuð hlutfallslega um 55,25%.