Norska ríkið hefur nú selt 9,88% hlut sinn í skandinavíska flugfélaginu SAS. Þetta kemur fram á vefsíðunni turisti.is Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Ósló seinnipartinn í gær og var söluverðið 597 milljónir norskra króna.

Þegar Norðmenn fara úr hluthafahópnum verða ákveðin tímamót í sögu SAS því danska, sænska og norska ríkið hafa sameiginlega farið með stóran hlut í flugfélaginu. Norskir ráðamenn hafa þó lengi látið í það skína að þeir væru tilbúnir að selja hlut ríkisins í SAS og Svíar hafa verið á sömu línu. Sænska ríkið er stærsti einstaki hluthafinn í flugfélaginu með 14,8% en Danir eiga 14,2%.

SAS hefur lengi verið stærsta flugfélag Norðurlanda en í fyrra tók Norwegian fram úr þegar litið er til fjölda farþega.Staða Norwegian er hins vegar veik og nýverið þurfti félagið að óska eftir auknu hlutafé og móðurfélög British Airways og Lufthansa hafa lýst yfir áhuga á að kaupa félagið líkt og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá.