„Ég get staðfest að við höfum selt allan okkar eignarhlut og eigum því ekkert lengur í Bakkvör,“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að ástæða sölunnar hafi verið óánægja með hlutafjáraukningu sem samþykkt var á aðalfundi félagsins nýverið.

Hlutafjáraukningin tryggir Ágústi og Lýð Guðmundssyni, stofnendum Bakkavarar, þann möguleika á að eignast allt að 25 prósent hlut í félaginu. LSR átti 5,72 prósent hlut í Bakkavör Group um síðustu áramót til viðbótar við 8,72 prósent hlut í breytilegum bréfum. Sjóðurinn fékk nýverið tilboð í gegnum ótengdan aðila, að sögn Hauks, og ákvað að selja allan eignarhlut sjóðsins.