Á einum sólarhring seldust 25 íbúðir á Bjarkarvöllum í Hafnarfirði. Það voru fasteignasölurnar Ás og Hraunhamar sem sáu um sölu íbúðanna.  Eiríkur Svanur Sigfússon, fasteignasali hjá fasteignasölunni Ási, segir frá þessu í samtali við vefinn Bærinn okkar . Hann staðfestir þetta einnig í samtali við VB.is. „Þessar íbúðir voru náttúrlega snilldarhönnun og á besta stað,“ segir Eiríkur.

Íbúðirnar eru 70 fermetrar að stærð og þriggja herbergja með geymslu, en geymsluna má nýta sem herbergi. Verðið á þeim var frá 20 milljónum upp í tæplega 22 milljónir króna. Þetta er fimm hæða hús og eru fimm íbúðir á hverri hæð.

„Það var fólk á öllum aldri sem keypti þarna,“ segir Eiríkur í samtali við VB.is. Hann segist finna fyrir kipp í fasteignasölunni. „Mér finnst byggingaverktakar hafa verið að byggja vitlaust. Það er verið að einblína allt of mikið að því að vera að byggja stórar og flottar íbúðir miðsvæðis sem eru hugsaðar fyrir fólk sem er að minnka. Svo er fermetraverð svo gígantískt. Það eru allir að byggja svoleiðis íbúðir og svo kemur einn sem er í þessu,“ segir Eiríkur.