Stærsti einstaki hluthafinn í HS Orku, kanadíska fyrirtækið Alterra Power, hefur verið keypt af fyrirtækinu Innergex Renewable Energy að því er fram kemur á Bloomberg . Kaupir Innergex Renewable Energy tæpleg 54% hlut Alterra Power í félaginu fyrir 1,1 milljarð Bandaríkjadala, eða sem jafngildir tæplega 116 milljörðum íslenskra króna.

Verðmæti HS Orku er um fjórðungur af þeirri upphæð. Greiðir Innergex fyrir hlutinn að þremur fjórðu hlutum með hlutabréfum í sjálfum sér en einum fjórða með reiðufé. Félagið er einnig kanadískt orkufyrirtæki, stofnað árið 1990 í Québec og rekur þar og víðar í landinu vind-, sólar- og vatnsaflsvirkjanir. Altherra Power varð hins vegar til með sameiningu Magma Energy og Plutonic Power.

Juku við hlut sinn eftir að stöðvuðu sölu á hlut í Bláa lóninu

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í ágúst juku íslenskir lífeyrissjóðir við hlut sinn í orkufyrirtækinu, á kostnað Alterra, sem átti áður tvo þriðju hluta í því. Um sama leiti stöðvuðu lífeyrissjóðirnir sem áttu þriðjungshlut í félaginu söluna á 30% hlut HS Orku á Bláa lóninu til sjóða í stýringu Blackstone, þvert á vilja meirihlutaeigandans.

Voru lífeyrissjóðirnir ósáttir við 11 milljarða tilboðið í hlutinn í Bláa lóninu, sem hefði verðmetið þennan vinsælasta ferðamannastað landsins á 37 milljarða króna. Nokkrum mánuðum áður, eignuðust lífeyrissjóðirnir 12,7% hlut til viðbótar í HS Orku á 6,9 milljarða, svo 46,1% eignarhlutur lífeyrissjóðanna í orkufyrirtækinu er þá miðaður við að vera að verðmæti 25,2 milljarða.

Eignarhluturinn í HS Orku nálægt fjórðungi í verðmæti Alterra

Þá var hluturinn keyptur á 6,97 krónur en miðað við það verð ætti heildarverðmæti HS Orku að vera á bilinu tæplega 53 milljarðar upp í rúmlega 55 milljarð svo gróflega má áætla að eignarhlutur Alterra í HS Orku sé að verðmæti 29 milljarðar íslenskra króna, eða sem nemur fjórðungi af heildarvirði Alterra.

Þetta er töluverð verðmætaaukning frá því þegar lífeyrissjóðirnir keyptu upphaflega þriðjungshlut á 4,63 krónur á hvern hlut, en þá má þá reikna með að heildarverðmæti fyrirtækisins hafi verið metið á tæpa 37 milljarða króna. Árið 2012 bættu lífeyrissjóðirnir síðan við sig eignarhlut í félaginu með hlutafjáraukningu og var þá hvert bréf félagsins verðmetið á 5,35 krónur á hlut svo reikna má með að heildarverðmæti félagsins hafi þá verið metið á rúmlega 41 milljarð.

Íslenskir fjárfestar reyndu að kaupa árið 2013

Íslenskir fjárfestar, bæði sjóðir í rekstri Stefnis sem og Modum Energy, undir forystu Alexanders K. Guðmundssonar fyrrum framkvæmdastjóra Geysir Green Energy og Eldar Ólafssonar höfðu reynt að kaupa hlut Alterra árið 2013, sem þá nam tveimur þriðju í félaginu.

Þær samningaviðræður runnu hins vegar út í sandinn en fjárfestarnir hugðust skrá félagið á markað eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma, en þá var áætlað kaupverð á hlutnum 28 milljarðar króna. Þá má ætla að heildarverðmæti félagsins hafi verið 36 milljarðar íslenskra króna.