Gallalaus 101,38 karata demantur seldist á 12,2 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 1,5 milljörðum króna, á uppboði í Hong Kong hjá uppboðshúsinu Sotheby‘s á föstudaginn. Söluverðið var þó 18% undir 15 milljóna dala efri mörkum á áætluðu virði skartgripsins. Um er að ræða aðeins einn af tíu demöntum yfir 100 karötum sem boðnir hafa verið upp.

Sjá einnig: Móna Lísa frímerkja seld á milljarð

Uppboðshúsið tilkynnti að kaupandinn, ónefndur safnari, mun greiða fyrir demantinn með rafmynt. Sotheby‘s sagði að þetta hafi verið hæsta fjárhæð sem fengist hefur fyrir skartgrip þar sem rafmynt er notuð sem gjaldmiðill. Uppboðshúsið tók aðeins við rafmyntunum Bitcoin og Ether, en ekki hefur verið gefið upp hvora myntina kaupandinn notaði.

Sotheby‘s hefur horft til rafmynta í auknum mæli en uppboðshúsið tók við rafmynt fyrir 12,9 milljóna dala sölu á málverki eftir Banksy í maí síðastliðnum, að því er kemur fram í frétt New York Post .