Egill Jóhannsson, forstóri Brimborgar, segir það hafa verið mikið heillaspor að hefja rekstur bílaleigu í miðju hruninu árið 2008, þegar bílaumboðið tók við alþjóðlegu bílaleigumerkjunum Dollar & Thrifty.

Viðbótin hafi í raun sveiflujafnandi áhrif, sem hafi skipt sköpum eftir gengishrunið sem fylgdi bankahruninu, en íslenska krónan og gengi hennar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er einn af stærstu áhrifaþáttum í rekstri bílasölu hér á landi.

Bílaleigur þrífast á ferðamannastraumnum sem fylgir veikari krónu, á sama tíma og bílasala dregst saman vegna hærra innflutningsverðs. „Það var engin spurning að þetta hjálpaði til við að halda okkur á floti í kjölfar hrunsins. Í október 2008 keyptum við litla bílaleigu í Keflavík, sem var með samning við Dollar & Thrifty. Þann 1. febrúar 2009 fengum við fyrstu bókanirnar, en það sumar vorum við komnir í 550 bíla flota. Þá voru það allt notaðir bílar sem við höfðum verið að taka upp í, og enginn vildi kaupa.“

Á sama tíma og bílaleigan þreifst og dafnaði nánast fraus sala nýrra bíla. „Salan á nýjum bílum hafði verið um 2.200 bílar á ári fyrir hrun. Við seldum 59 bíla árið 2009.“

Gjaldeyrisvarnir borguðu sig ekki
Árið 1992 freistaði Brimborg þess að draga úr áhrifum gengissveiflna sveifla með svokölluðum gjaldeyrisvörnum (e. hedge): framvirkum samningum sem skuldbinda samningsaðila til að stunda viðskipti á fyrirfram ákveðnu gengi eftir ákveðinn tíma. Egill segir gallana hins vegar hafa verið kostunum yfirsterkari, og að lokum var ákveðið að varnirnar borguðu sig ekki.

„Við vorum fyrsta bílaumboðið á Íslandi sem fórum í afleiðuviðskipti útaf innkaupum á bílum. Það byrjaði þannig að sænska krónan var þá rosalega veik, þannig að Svíarnir hækkuðu vexti uppúr öllu valdi, sem skapaði mikinn vaxtamun. Þegar maður keypti framvirkt var það því á lægra gengi en stundargengið. Við gerðum þetta í nokkur ár.

Vandamálið var hins vegar að ef gengisþróun krónunnar var hagstæð, þá sátum við uppi með lakari innkaupakjör en keppinautarnir, þar sem þeir gerðu þetta ekki. Okkar niðurstaða var því sú að þegar upp er staðið til lengri tíma sé betra að gera þetta ekki, heldur sveifla verðinu í takt við gengisþróunina. Þannig erum við alltaf með samkeppnishæf verð við okkar keppinauta, enda standa þeir allir frammi fyrir sömu gengisáhættunni.“

Nánar er rætt við Egil í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .