Félagið Gildruklettar ehf. hefur selt alla hluti sína í Nýherja, en um er að ræða 20.772.291 hluti í félaginu. Skráð hlutafé í félaginu nemur 400 milljónum króna og er því um að ræða ríflega fimm prósenta hlut í Nýherja.

Í flöggunartilkynningu til Kauphallarinnar segir að viðskiptin hafi farið fram í dag. Gengi í viðskiptunum kemur ekki fram í flögguninni, en ef miðað er við lokagengi bréfa Nýherja í dag, 3,74 krónur á hlut, nam söluverðið tæplega 77,7 milljónum króna.

Eigendur Gildrukletta eru þrír, Einar Sveinsson, Halldór Teitsson og Benedikt Jóhannesson, og eiga þeir hver um sig þriðjungshlut í félaginu.

Í annarri flöggun frá Einari Sveinssyni kemur fram að félög sem hann á hlut í eiga eftir viðskiptin 6,36% hlut í Nýherja. Annars vegar er þar um að ræða Áningu-fjárfestingar, sem hann á 100% hlut í, og Hrómund ehf., sem hann á 55% hlut í.