*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 15. júní 2018 08:19

Seldu fyrir 39 milljarða í Arion

Markaðsvirði Arion banka er um 136 milljarðar íslenskra króna, en um 520 milljón bréf eða um 31% hlutafjár voru seld í útboðinu.

Ritstjórn
Höskuldur H. Ólafsson er bankastjóri Arion banka.

Lokaverð í frumútboði Arion banka nam 75 krónur á hlut eða sem nemur 6,11 sænskum krónum á hlutdeildarskírteinum. Í frumútboðinu voru seldir hlutir fyrir alls kr. 39.028 milljónir, eða sem samsvarar 3.180 milljónir sænskra króna. Það eru u.þ.b. 369 milljónir bandaríkjadala.

Það þýðir að markaðsvirði bankans er u.þ.b. kr 135.750 milljónir, eða sem samsvarar 11.061 milljónir sænskra króna. Í Bandaríkjadölum gerir það u.þ.b. 1.285 milljónir.

Frjálst flot verður væntanlega u.þ.b. 30,9%, en fyrstu viðskipti hefjast þegar kauphöllin opnar nú klukkan 9:30 í dag, en samtímis hefjast viðskipti með bréfin í sænsku kauphöllinni sem er klukkan 11:30 á staðartíma.

Tímamótaskráning í tveimur kauphöllum

„Við erum ánægð og stolt af þeim áhuga sem bankanum var sýndur í skráningarferlinu, bæði frá almenningi og stofnanafjárfestum á Íslandi og í Bandaríkjunum, Bretlandi, á Norðurlöndum og víðar í Evrópu,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.

„Þetta er viðurkenning á þeim góða árangri sem bankinn hefur náð og sterkri stöðu hans og íslensks efnahagslífs. Við erum ekki síður ánægð með þau tímamót sem felast í skráningu bankans í kauphöll í Reykjavík og Stokkhólmi.“

Alls 520.375.000 bréf í boði

Viðskipti með hlutabréf bankans fara fram undir auðkenninu ARION IR og ISIN IS0000028157 hjá Nasdaq Iceland og með SDR hjá Nasadaq Stockholm undir auðkenninu ARION SDR og SE0010413567.

Alls verða 452.500.000 hlutabréf seljenda seld í frumútboðinu. Að auki verða allt að 67.875.000 hlutabréf í eigu seljenda gerð aðgengileg til að mæta mögulegri umframeftirspurn. Að því gefnu að síðarnefndu hlutabréfin verði einnig seld þá verða alls seld hlutabréf í Arion banka í frumútboðinu fyrir kr. 39.028.125.000 eða 3.179.999.000 sænskar krónur.

Markaðsvirði Arion banka nemur þá kr. 135.750.000.000 eða 11.060.865.314 sænskar krónur og frjálst flot verður á u.þ.b. 30,9% af útgefnu hlutafé Arion banka. Margföld umframeftirspurn var í útboðinu á því verði sem viðskipti fór fram. Mikill áhugi var bæði frá almennum fjárfestum og fagfjárfestum.

Hlutabréf í bankanum voru seld til almennra fjárfesta í Íslandi og Svíþjóð sem og fagfjárfestum frá Íslandi, Bandaríkjunum og Evrópu. Umsjónaraðilar útboðsins eru fjárfestingarbankasvið Arion banka hf., Carnegie, Citigroup, Morgan Stanley, Deutsche Bank, Goldman Sachs International, Fossar, Íslandsbanki, Landsbankinn og Svenska Handelsbanken.

Leiðarar, pistlar og skoðanadálkar um Arion banka:

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: