Eignarhaldsfélagið Snæfugl seldi í síðasta mánuði 0,3% hlut í Síldarvinnslunni (SVN), samkvæmt uppfærðum hluthafalista. Sé einungis horft til dagslokagengis SVN í október má ætla að söluandvirðið liggi á bilinu 404-453 milljónum. Félagið á eftir sem áður 4% hlut í SVN að markaðsvirði 6,3 milljörðum króna.

Félagið seldi einnig 1% hlut í Síldarvinnslunni í útboði útgerðarfélagsins fyrir skráningu í Kauphöllina í maí síðastliðnum. Söluverð hlutanna nam 1.007 milljónum króna og söluhagnaður var 965 milljónir, samkvæmt ársreikningi félagsins. Eignarhlutur Snæfugls hélst svo óbreyttur fram að sölunni í síðasta mánuði. Gera má ráð fyrir að félagið hafi selt samtals um 1,3% hlut í Síldarvinnslunni fyrir hátt í hálfan annan milljarð í lotunum tveimur.

Eignarhaldsfélagið Snæfugl er í meirihlutaeigu Halldórs Jónassonar en Jóhannes Pálsson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá SVN, fer með fjórðungshlut. Þá á Björgólfur Jóhannsson 5% hlut og Samherji 15% hlut í gegnum félagið Kaldbakur.