*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 15. janúar 2021 09:18

Seldu gjaldeyri fyrir 133 milljarða

Heildarvelta með gjaldeyri jókst um 124% á síðasta ári, en á sama tíma lækkaði gengi krónunnar um 10%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hrein gjaldeyrissala Seðlabanka Íslands á síðasta ári nam 132,7 milljörðum króna, en þrátt fyrir það nam lækkun gengis krónunnar 10,4%. Á sama tíma jókst heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri um 124% frá fyrra ári að því er greint er frá á vef Seðlabankans.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 816,7 milljörðum króna í árslok eða um 30% af vergri landsframleiðslu. Gjaldeyrisjöfnuður Seðlabankans, þ.e. eignir umfram skuldir bankans í erlendum gjaldmiðlum, nam 572 ma.kr. í lok ársins 2020 samanborið við 646 milljarða króna í lok ársins 2019.

Í tilkynningu bankans segir að gengið hafi lækkað mest í mars í kjölfar þess að fyrstu tilfelli COVID-19 greindust hér á landi en meiri stöðugleiki náðist mánuðina á eftir.  Jafnframt segir þar að hlé lífeyrissjóða á gjaldeyriskaupum til erlendra fjárfestinga hafi gengt veigamiklu hlutverki í að viðhalda gengisstöðugleika.

Í tilkynningunni er einnig nefnt að Seðlabankinn hafi átt gjaldeyrisviðskipti vegna umfangsmikilla fjármagnsviðskipta erlendra aðila á árinu í tengslum við sölu á innlendum verðbréfum og viðskipti með aflandskrónur.