Fyrrverandi eigendur Greenqloud fengu 51 milljón dala í sinn hlut þegar hugbúnaðar- og hýsingarrisinn NetApp keypti félagið í ágúst líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá . Greint er frá söluverðinu á vef Northstack en það samsvarar tæplega 5,3 milljörðum miðað við gengi dagsins í dag.

Meðal eigenda Greenqloud voru Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson meðeigendur í Novator, Birkir Kristinsson og Vilhjálmur Þorsteinsson. Omega Iceland sem er félag í eigu Birgis Más Ragnarssonar meðeiganda í Novator og Andra Sveinssonar, átti 13,4% og fékk því 6,8 milljónir dala fyrr sinn hlut. Meson Holding, félag Vilhjálms Þorsteinssonar, átti 1,1% og fékk því hálfa milljón dala í sinn hlut. Þá fékk KP Holding, félag Birkis Kristinssonar 5,9 milljónir dala fyrir 11,6% hlut sinn.

Aðrir hluthafar Greenqloud voru Kjölur fjárfestingarfélag sem áttu 38,8%, NSA Ventures sem áttu 15,8% og fjárfestirinn Kelly Ireland sem átti 7,5%.

Viðskiptablaðið fjallaði um það í fyrra að Kelly Ireland hefði fjárfest í Greenqloud fyrir 4 milljónir dala og fengið í sinn hlut 7,5% hlutafjár félagins. Samkvæmt Jónsa Stefánssyni, framkvæmdastjóra Greenqloud, hagnaðist Kelly um ríflega 200 milljónir króna á viðskiptunum.

NetApp er eins og áður sagði eitt stærsta fyrirtæki í Bandaríkjunum og er meðal annars á Fortune 500 listanum. Höfuðstöðvar þess eru í Sunnyvale í Kaliforníu en það sérhæfir sig í geymslukerfum og utanumhaldi gagnavera ásamt því að vera leiðandi í skýjaþjónustu. Markaðsvirði þess er meira en 15 milljarðar dala.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að Björgólfur Thor hefði sjálfur hagnast á viðskiptunum en hið rétta er að meðeigandi hans í Novator, Birgir Már Ragnarson fjárfest í Greenqloud í gegnum félagið Omega Iceland. Þá var einnig sagt að Kelly Ireland hefði tapað á viðskiptunum en samkvæmt fyrrverandi forstjóra Greenqloud, Jónsa Stefánssyni, högnuðust allir á viðskiptunum.