Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sem fengu nýverið 0,8% hlut í félaginu án endurgjalds, seldu hluti sem þeir áttu í því á árunum 2008 og 2009 fyrir hundruð milljóna króna. Kaupandinn að bréfunum sem þeir áttu áður voru Hagar sjálfir. Er sagt frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Hagar keyptu 3,74% hlut í sjálfum sér í þremur atrennum á árunum 2008 og 2009. Seljendurnir voru þrír lykilstarfsmenn: Finnur Árnason, forstjóri Haga, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss og Jóhanna Waagfjörð, þáverandi fjármálastjóri Haga. Í fréttinni er tekið fram að samkomulag lá fyrir milli Haga og starfsmannanna þriggja um kaup á umræddum hlutabréfum áður en Arion banki leysti félagið til sín.

Í tengslum við ákvörðun um sölu á 20-30% hlut í Högum í gegnum Kauphöll í nóvember 2011 var samið upp á nýtt við lykilstjórnendurna fimm. Nú var ákveðið að tveir þeirra, Finnur Árnason og Guðmundur Marteinsson, myndu fá 0,4% hlut hvor án endurgjalds og þeir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, Kjartan Már Friðriksson, framkvæmdastjóri Banana, og Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, 0,2% hlut hver. Samtals fengu stjórnendurnir fimm því 1,4% hlut í Högum frá Arion banka, miðað við gengið 10. Virði þessa hlutar, miðað við það gengi, er 170 milljónir króna.