*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 25. nóvember 2011 08:59

Seldu hluti í Högum fyrir hundruð milljóna

Stjórnendur Haga seldu hluti sína fyrir nokkrum árum en fá þá aftur gefins núna.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sem fengu nýverið 0,8% hlut í félaginu án endurgjalds, seldu hluti sem þeir áttu í því á árunum 2008 og 2009 fyrir hundruð milljóna króna. Kaupandinn að bréfunum sem þeir áttu áður voru Hagar sjálfir. Er sagt frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Hagar keyptu 3,74% hlut í sjálfum sér í þremur atrennum á árunum 2008 og 2009. Seljendurnir voru þrír lykilstarfsmenn: Finnur Árnason, forstjóri Haga, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss og Jóhanna Waagfjörð, þáverandi fjármálastjóri Haga. Í fréttinni er tekið fram að samkomulag lá fyrir milli Haga og starfsmannanna þriggja um kaup á umræddum hlutabréfum áður en Arion banki leysti félagið til sín.

Í tengslum við ákvörðun um sölu á 20-30% hlut í Högum í gegnum Kauphöll í nóvember 2011 var samið upp á nýtt við lykilstjórnendurna fimm. Nú var ákveðið að tveir þeirra, Finnur Árnason og Guðmundur Marteinsson, myndu fá 0,4% hlut hvor án endurgjalds og þeir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, Kjartan Már Friðriksson, framkvæmdastjóri Banana, og Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, 0,2% hlut hver. Samtals fengu stjórnendurnir fimm því 1,4% hlut í Högum frá Arion banka, miðað við gengið 10. Virði þessa hlutar, miðað við það gengi, er 170 milljónir króna.