Fjárfestingasjóðir í stýringu breska fjárfestingarfyrirtækinu Landsdowne Partners hafa á undaförnum mánuði selt 13.145.000 hluti í Festi sem nemur tæplega 4% hlut í félaginu. Miðað við núverandi gengi á bréfum Festi nemur salan ríflega 1,8 milljörðum króna. Þetta kemur fram í uppfærðum hluthafalista sem Kauphöllin sendi frá sér nú fyrir skömmu.

Samkvæmt listanum sem miðast við daginn í gær eiga sjóðir í stýringu hjá Landsdowne nú um 2% hlut í Festi en hlutur þeirra nam um 5,95% þann 23. desember á síðasta ári. Þann 20. Janúar síðastliðinn kom fram í flöggun til Kauphallarinnar að hlutur félagsins væri kominn niður í 3,86% en samkvæmt hluthafalistanum hafa sjóðir fyrirtækisins selt um 1,86% til viðbótar í félaginu.

Á sama tíma og sjóðir Landsdowne hafa dregið úr hluti sínum í Festi hefur hlutabréfasjóðurinn ÍS 15 sem er í stýringu hjá Stefni aukið við hlut sinn í félaginu um tæpt prósentustig.

Töluverð velta hefur verið með bréf Festi í janúarmánuði er um 7,7 milljarðar og er velta með bréf félagsins ríflega þrefalt meira en í sama mánuði í fyrra. Þá hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um 9,5% það sem af er mánuðinum.