Lífeyrissjóðurinn Lífsverk er ekki lengur meðal tuttugu stærstu hluthafa Icelandair. Félagið var þar til nýlega að finna á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Icelandair með ríflega 300 milljónir hluta sem metnir eru á um í hálfan milljarð króna.

Lífsverk tók ásamt Birtu lífeyrissjóði og fjölda einkafjárfesta þátt í nýafstöðnu hlutafjárútboði flugfélagsins Play sem hyggst hefja áætlunarflug í sumar. Lífsverk á eftir útboðið 4,28% hlut í Play samkvæmt hluthafalista sem Play birti í síðustu viku og er þar með áttundi stærsti hluthafi Play.

Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri Lífsverks segir Lífsverk enn meðal hluthafa í Icelandair þó lífeyrissjóðurinn hafi selt hluta bréfa sinna í flugfélaginu. Þá hafi sala bréfanna ekki verið nein yfirlýsing af hálfu lífeyrissjóðsins.

Lífsverk tók einning þátt í hlutafjárútboði Icelandair í haust og fjárfesti fyrir um 252 milljónir króna, sem samsvarar tæplega 0,3% af eignum samtryggingardeildar. Lífsverk átti ekki teljandi eignarhlut í Icelandair fyrir útboðið samkvæmt því sem fram kom á vef lífeyrissjóðsins . Birta tók hins vegar ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair í haust en fjárfesti fyrir um einn milljarð króna í Play.

Sjá einnig: Play birtir hluthafalista

Hlutabréfaverð Icelandair, sem birtir uppgjör fyrsta ársfjórðungs á fimmtudaginn, hefur hækkað um 17% frá því á þriðjudaginn, þar af um 5% í dag. Gengi bréfa Icelandair stendur nú í 1,64 krónum á hlut. Á þriðjudaginn hélt ríkisstjórnin blaðamannafund þar sem fram kom að allir Íslendingar 16 ára og eldri ættu að hafa fengið hið minnsta fyrstu bólusetningarsprautu við COVID-19 fyrir 1. júlí næstkomandi.

Tuttugasti stærsti hluthafi Icelandair er nú Lífeyrissjóður Vestmannaeyja sem á 196 milljónir hluta í flugfélaginu sem samsvarar um 0,69% hlut.