Kjálkanes ehf. seldi í hádeginu hlutabréf fyrir tæpan hálfan milljarð í Síldarvinnslunni. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Kjálkanes seldi hlutabréf í Síldarvinnslunni fyrir 448 milljónir króna en félagið seldi 7 milljónir hluta á genginu 64 krónur. Eftir viðskiptin á félagið tæplega 320 milljónir hluta í Síldarvinnslunni.

Kjálkanes er næst stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar eftir viðskiptin með 18,8% hlut, í samanburði við 19,2% hlut fyrir viðskiptin, en Samherji er enn sem áður stærsti hluthafinn með tæplega þriðjungshlut.

Systkynin Ingi Jóhann Guðmundsson og Anna Guðmundsdóttir eru stærstu hluthafar Kjálkaness með tæplega fjórðungshlut hvort um sig. Þau sitja einnig í stjórn Síldarvinnslunar.

Eigendur Kjálkaness eru þeir sömu og eiga útgerðina Gjögur á Grenivík en Björgólfur Jóhannsson , sem nýlega lét af störfum sem forstjóri Samherja, er meðal tíu stærstu hluthafa útgerðarinnar Gjögurs.