Vatnsfyrirtækið Icelandic Water Holdings tapaði 9,1 milljón dala á síðasta ári. Það gerir einn milljarð íslenskra króna. Þetta er nokkur bati á milli ára en tap fyrirtækisins nam 9,9 milljónum dala árið 2011. Munar þar um að nokkuð dró úr söluandvirði vatns fyrirtækisins á flöskum undir merkjum Icelandic Glacial á milli ára. Verðmætið nam 8,2 milljónum dala, jafnvirði 984 milljóna íslenskra króna, í fyrra samanborið við sölu upp á 9,4 milljónir dala árið 2011.

Rekstrartekjur Icelandic Water Holdings námu tæpum 8,3 milljónum dala í fyrra samanborið við 9,6 milljónir dala árið 2011. Rekstrarkostnaður lækkað talsvert á milli ára. Hann nam rúmum 16,7 milljónum dala í fyrra samanborið við 19,6 milljónir árið 2011.

Eignir Icelandic Water Holdings lækkuðu lítillega á milli ára. Þær námu 142 milljónum dala í fyrra samanborið við 148,7 milljónir árið 2011. Á móti námu skuldir 36 milljónum dala sem er lítilsháttar hækkun á milli ára en þær námu tæpum 35,2 milljónum dala árið 2011.

Jón Ólafsson, sem löngum var kenndur við Skífuna á árum áður en vatnsútflutning síðustu árin, er framkvæmdastjóri Icelandic Water Holdings. Hann stofnaði fyrirtækið ásamt Kristjáni syni sínum og eiga þeir samtals 40,6% hlut í fyrirtækinu. Icelandic Water Holdings framleiðir vatn á flöskum undir vörumerkinu Icelandic Glacial og flytur út víða um heim. Á móti Jóni og Kristjáni á bandaríski drykkjavörurisinn Anheuser Busch um 20% hlut í Icelandic Water Holdings.