Landsbankinn seldi Sundlaugaveg 30a, húsið við hlið Laugardalslaugar þar sem World Class rekur sína stærstu líkamsræktarstöð, á 2,4 milljarða króna árið 2013. Kaupandinn var Laugar ehf., rekstrarfélag World Class.

Þetta kemur fram í svörum Landsbankans við fyrirspurn Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlut bankans í Borgun, en í fyrirspurninni var spurt um sölu bankans á eignum á árunum 2009 til 2015.

Laugar ehf. átti kauprétt að Sundlaugavegi 30a á grundvelli eldra samkomulags. Fasteignin var seld í beinni sölu, en vegna kaupréttar Lauga ehf. þóttu ekki forsendur til að selja fasteignina í opnu söluferli.

Landsbankinn tekur fram að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gert athugasemd við söluna á eigninni til Lauga ehf. Björn Leifsson er framkvæmdastjóri Lauga.